Námskeið

Foreldrafærni: SOS! Hjálp fyrir foreldra

 

Hvað er SOS?

SOS er uppeldisnámskeið fyrir foreldra sem hannað er af sálfræðingnum Dr. Lynn Clark. Námskeiðinu er ætlað að hjálpa foreldrum að bæta hegðun barna sinna og stuðla að félagslegri og tilfinningalegri aðlögun.

Hvernig er námskeiðið uppbyggt?

Hvert námskeið stendur yfir í 6 vikur. Kennt er einu sinni í viku, 2,5 klst í senn. Allir þátttakendur fá bókina SOS! Hjálp fyrir foreldra, ýmsa einblöðunga, eggjaklukku (til að nota við  hlé) og viðurkenningarskjal eftir námskeiðið. 

 

Fyrirkomulag kennslu

Stutt sjálfspróf í byrjun hvers tíma úr heimalesefni vikunnar. Fyrirlestur um efni vikunnar. Umræður um hvernig gengur heima. Þáttakendur fá tækifæri til að fá persónulegar leiðbeiningar. Sýnt myndband sem sýnir samskipti barna og foreldra í ólíkum aðstæðum. Eftir hverja senu eru umræður þar sem spjallað er um hvaða viðbrögð foreldra voru óheppileg/heppileg og hvers konar viðbrögð eru líkleg til árangurs, í mismunandi aðstæðum.  

Á námskeiðinu er m.a. fjallað um:

    •       hvernig skýr skilaboð efla foreldrahlutverkið

    •       aðferðir til að styrkja æskilega hegðun og draga úr óæskilegri hegðun

    •       grundvallaratriði í notkun hlés

 
Snillingarnir Þjálfun í samskiptum, tilfinningastjórn og athygli barna með ADHD

Þjálfun í samskiptum, tilfinningastjórn og athygli barna með ADHD. 

Fyrirtækið Hegðunarráðgjöf býður börnum með ADHD að taka þátt í námskeiði til að efla færni á ýmsum sviðum. Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 9-12 ára og eru 6-8 börn í hverjum hóp. Áhersla er lögð á að auka færni barna í félagslegum samskiptum, skapstillingu og sjálfsstjórn. Hópurinn hittist tvisvar í viku í 1 ½ tíma í senn, í 5 vikur (10 skipti alls) með tveimur þjálfurum.

Eftirfarandi þættir eru teknir fyrir með börnunum í litlum hópum:

Tilfinninga- og reiðistjórnun: Börnunum eru kenndar ýmsar aðferðir við að stilla tilfinningar sínar þegar það er ekki viðeigandi að sýna þær, m.a. reiðistjórnun í samskiptum. Þar að auki læra þau um tilfinningar, svipbrigði og áhrif aðstæðna á líðan þeirra og annarra. Sú þekking mun nýtast þeim í samskiptum við aðra.

Félagsfærni: Farið er yfir atriði eins og hvernig og hvenær er viðeigandi að hefja samskipti við aðra, samskiptareglur og aukna færni í að setja sig í spor annarra.

Sjálfsstjórn: Kenndar eru aðferðir sem nýtast við að hamla hvatvísi og auka stjórn á eigin hegðun.  

Vandamálalausnir: Farið er yfir aðferðir við að leysa ýmis vandamál sem upp koma á skynsamlegan hátt. Í því felst að finna valmöguleika í stöðunni, hugsa um mögulega útkomu hvers valmöguleika og velja bestu lausnina til að ná ákveðnu markmiði.

Umbunarkerfi: Hvert barn vinnur sér inn í hverjum tíma spilapeninga sem það fær fyrir að vinna verkefni og fara eftir reglum á stöðvunum. Í lok hvers tíma fá börnin að fara í Snillingabúðina þar sem þau geta keypt fyrir spilapeningana límmiða, bolta, tattoo, slím, armbönd, fótboltamyndir, og margt fleira, en einnig safnað upp í stærri vinninga eins og bíómiða. Í lok námskeiðsins teljum við saman öll stigin sem krakkarnir hafa náð að safna sér inn í sameiningu og höldum pizza partý í síðasta tímanum ef þau hafa náð markmiðinu.

 

Umsjón með námskeiðinu hefur Ingunn Brynja Einarsdóttir, M.Sc., hjá Hegðunarráðgjöf ehf.

 

Þroska- og hegðunarstöð hefur ekki náð að anna eftirspurninni og er biðlistinn hjá þeim orðinn mjög langur. Sem stendur eru þau ekki að bæta börnum á biðlistann hjá sér. Ef foreldrar hafa hug á Snillinganámskeiði fyrir barnið sitt er þeim bent á að hafa samband við skóla barnsins eða skólaþjónustuna um hvort námskeiðið sé í boði hjá þeim.

 

Kvíðanámskeið fyrir 8-12 ára

Reiðistjórnun fyrir 10-12 ára

Þarftu frekari upplýsingar? Hafðu þá samband

 

Við erum hér til að hjálpa þér. Hafðu samband með tölvupósti og við höfum strax samband við þig.